Guðjón Þórðarson fyrrum landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu segist hafa haft áhyggjur af kvennalandsliðinu í aðdraganda Evrópumótsins þegar hann fór að heyra af undirbúningi liðsins.
Guðjón segir liðið hafa sett of mikla einbeitingu á TikTok í stað þess að æfa meira.
„Það var farið af stað með miklar væntingar og miklar vonir, þegar ég sá undirbúning liðsins og heyrði í fólki þá leist mér ekki á blikuna,“ sagði Guðjón á Bylgjunni í gær.
Íslenska liðið tapaði öllum leikjum sínum á Evrópumótinu og datt út eftir riðlakeppni. „Það var mikið útkall á samfélagsmiðlum, fólk að taka hliðar saman hliðar. Fókusinn fór algjörlega, það var agaleysi. Þegar þú ætlar að ná árangri er agi upphaf árangurs.“
„Ef það er tími til að vera á Tiktok í tíma og ótíma, þá er hægt að æfa meira.“
Guðjón fór svartsýnn inn í mótið og átti von á því að Íslandi færi heim án stiga. „Ég sagði við fólkið í kringum mig að ég hefði enga trú á því að Ísland myndi vinni leik, ég vonaðist til að hafa rangt fyrir mér en svo var ekki.“
Um leikstíl liðsins hafði Guðjón þetta að segja. „Það er verið að setja boltann í úrslitasendingar alltof snemma, boltinn flýtur aldrei. Það eru engar skiptingar á milli kanta, við fórum í langar sendingar og lítil uppbygging. Boltinn var settur í hættu snemma, pressan var léleg. Við vorum aldrei í andliti andstæðingana, sjónræn pressa dugar ekki.“
„Glódís er að reyna að coacha eitthvað þarna aftast, þú sérð ekki neinar leikfræðilegar forsendur til að hjálpa liðinu.“
„Þetta var ekki liðsheild, það var enginn bragur á liðinu. Það var enginn taktík, það var vonast eftir því að hlutirnir myndu gerast. Það voru þrjár til fjórar sendingar og svo langt, vonast eftir aukaspyrnu eða innkasti.“
Guðjón segir íslenskar stelpur sitja eftir þegar kemur að þjálfun yngri leikmanna.
„Það á sér stað ör þróun í kvennabolta í Evrópu, þessi þjálfun byrjar í yngri flokkum og byrjar fyrr en hér. Þjálfunin hefur verið í þróun í kvennafótbolta hér á landi en ekki orðið eins ör, tæknilega erum við ekki eins flinkar og þær. Við þurfum að æfa af meiri ákefð og gera meiri kröfur, við náum ekki árangri ef við gerum ekki kröfur á æfingum.“
Guðjón segir að KSÍ þurfi að setjast niður og fara yfir sviðið, hvort breytinga sé ekki þörf.
„Það þarf að svara spurningum, Í hvaða formi erum við? Hvernig er uppsilið? Hvernig er varnarleikurinn? Hvar er karakterinn? Hvar er harkan og dugnaðurinn til að vinna?.“