Öryggisvörður á æfingasvæði íslenska kvennalandsliðsins hér í Thun er ekki sá liðlegasti. Það var komið inn á þetta í þættinum EM í dag á Vísi og getur undirritaður reyndar tekið undir upplifun fréttamanna miðilsins af öryggisverðinum.
„Það eru sjálboðaliðar hérna úti um allt á vegum UEFA og gott vibe frá öllum, sem og íbúum bæjarins. Það er kannski helst dyravörðurinn á æfingasvæði íslenska landsliðsins (sem hægt er að kvarta yfir),“ sagði Sindri Sverrisson í EM í dag, áður en Aron Guðmundsson tók til máls.
„Já við getum sagt að viðskilnaðurinn við öryggisverðina á æfingasvæði íslenska landsliðsins hafi verið, tja, það er gott að við séum ekki að fara að hitta þá aftur. Við skulum segja að þessi maður hafi ekki beint verið liðlegur í samskiptum. Þá er gott að vera með einn harðan með sér í teyminu, Anton tökumann. Hann stóð á sínu eins og maður á að gera,“ sagði hann, án þess að fara nánar út í málið.
Ísland mætir Noregi í lokaleik sínum á EM í kvöld. Liðið er þegar úr leik eftir töp gegn Finnlandi og Sviss það sem af er móti.