Margrét Lára Viðarsdóttir fyrrum framherji íslenska landsliðsins og ein besta knattspyrnukona í sögu Íslands var svekkt eins og fleiri þegar kvennalandsliðið féll úr leik á EM í gær.
Íslenska landsliðið er úr leik eftir tvo leiki og engu breytir hvað gerist gegn Noregi í síðustu umferð riðilsins.
Íslenska liðið tapaði gegn Sviss í gær en það tap kom í kjölfarið á slæmu tapi gegn Finnlandi í fyrstu umferð.
„Mér leið eins og okkur flestum, svekkt. Búið að byggja upp væntingar og spennu og svo er þetta farið frá manni á nokkrum dögum,“ sagði Margrét Lára á Bylgjunni í dag.
„Ég tala um það í aðdraganda allra landsleikja að við þurfum að eiga okkar besta leik, það þurfa allar að ná að tengja og tengja á milli lína. Mér fannst það vanta heilt yfir í þessum tveimur leikjum.“
„Við erum ekki komin með þá virðingu að andstæðingurinn sé hræddur við okkur, heilt yfir erum við bara á þeim stað og verðum það eflaust sem íslensk þjóð. Það hafa allir trú á því að geta unnið okkur.“
Margrét Lára segir erfitt að benda á það hvað hafi klikkað. „Við hvern er að sakast er erfitt að segja en við þurfum liðsheild og það hefur ekki komið frammistaða frá öllum ellefu saman í gegnum heilan leik.“
Borið hefur á gagnrýni á stelpurnar fyrir að vera mjög virkar á samfélagsmiðlum í kringum mótið „Ég er alltof gömul til að tjá mig um þetta, ég er ekki á TikTok sjálf. Þetta eru stelpur sem eru atvinnumenn í sinni íþrótt og til að vera á þeim stað, til að vera þarf að leggja líf og sál í þetta. Ég efast ekki í eina sekúndu um að þær gera það.“
Framtíð Þorsteins Halldórssonar með liðið hefur verið rædd en Margrét vill ekki blanda sér í þá umræðu. „Ég held að þetta sé í höndum Þorsteins og KSÍ, samtal sem þau þurfa að taka til sín á milli. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu. Það er ekki hægt að benda á neinn einn eftir svona mót.“