AC Milan ætlar sér ekki að kaupa Kyle Walker endanlega frá Manchester City í sumar, ef marka má ítalska miðla.
Walker er á láni hjá Milan frá City, en hann vildi nýja áskorun í glugganum í janúar. Það er farið að hægjast á kappanum og mátti sjá það í ensku úrvalsdeildinni fyrir áramót. Þá var stanslaust vesen í einkalífi hans ekki til að hjálpa.
Bakvörðurinn fór því til Milan á láni en ítalska félagið hafði kaupmöguleika upp á 4,2 milljónir punda, eitthvað sem það ætlar sér ekki að nýta samkvæmt Calciomercato.
Þar spilar inn í að Walker hefur verið að glíma við meiðsli en einnig frammistaða Alex Jimenez, sem spilar sömu stöðu og Englendingurinn.
Walker gæti því snúið aftur til City, eitthvað sem fæstir bjuggust við, eða fundið sér annað lið í sumar, reynist þessar fregnir á rökum reistar.