Raul Asencio, leikmaður spænska stórveldisins Real Madrid, gæti átt yfir höfði sér dóm fyrir meinta dreifingu á kynferðislegu efni, en í því var stúlka undir lögaldri.
Málið á að hafa átt sér stað árið 2023. Asencio og þrír fyrrum liðsfélagar hans úr akademíu Real Madrid, Ferran Ruiz, Juan Rodriguez og Andreas Garcia, eiga að hafa dreift kynferðislegu efni af tveimur stúlkum, án þeirra samþykkis. Tengist þetta uppákomu á Kanarí árið 2023.
Þrír þeirra, allir nema Asencio, voru handteknir vegna málsins árið 2023 og var þá litið á hann sem vitni að því. Nú er hins vegar sagt frá því að hann sé talinn til hugsanlegra gerenda í málinu. Var fjallað um málið á sínum tíma en einstaklingarnir sem eiga í hlut ekki nafngreindir þá.
Rannsókn á málinu er nú lokið og The Athletic segir það á borði ríkissaksóknara, sem mun taka ákvörðun um hvort mennirnir verði ákærðir.