Andy Carroll er orðinn vinsælasti leikmaður franska liðsins Bordeaux en hann gekk í raðir félagsins í sumar.
Um er að ræða fyrrum enskan landsliðsmann sem spilaði með liðum eins og Newcastle, Liverpool og West Ham.
Carroll er 35 ára gamall í dag en hann ákvað að taka slaginn í sumar og hjálpa Bordeaux í fjórðu efstu deild Frakklands – félagið varð nýlega gjaldþrota.
Carroll hefur staðið sig stórkostlega eftir komuna og reyndist hetjan í gær er Bordeaux vann 1-0 sigur á Avranches.
Englendingurinn var einnig frábær í leikjunum fyrir það en hann gerði bæði mörkin í 2-1 sigri á Saumur Olympique og þá bæði mörkin í 2-2 jafntefli við Chateaubriant.
Carroll er því búinn að skora fimm mörk í aðeins þremur leikjum og er kominn í guðatölu á meðal stuðningsmanna Bordeaux sem er gríðarlega stórt félag í Frakklandi.
Carroll tók á sig verulega launalækkun er hann samdi við Bordeaux en hann var hrifinn af því verkefni að koma liðinu aftur í efstu deild.