Íslenska landsliðið átti magnaða endurkomu gegn Wales á heimavelli í Þjóðadeildinni í kvöld. Útlitið var ekki bjart fyrir íslenska liðið eftir fyrri hálfleikinn.
Varnarleikur íslenska liðsins í fyrri hálfleik var slakur og refsuðu gestirnir með tveimur auðveldum mörkum.
Það var hins vegar allt annað að sjá íslenska liðið í seinni hálfleik, Wales fékk ekki færi og íslenska liðið sótti og sótti.
Varamaðurinn Logi Tómasson átti magnaða innkomu, hann minnkaði muninn í 1-2 með laglegu skoti. Í jöfnunarmarkinu þræddi hann sig svo í gegnum vörn Wales og skaut í markvörð Wales og þaðan í markið. Markið skráðist sem sjálfsmark á Danny Ward.
Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en íslenska liðið var frábært í seinni hálfleik. Ísland er með fjögur stig í riðlinum, Wales með fimm í öðru sæti og Tyrkir efstir með sjö stig. Ísland mætir Tyrkjum á mánudag.
Einkunnir frá Laugardalsvelli eru hér að neðan.
Hákon Rafn Valdimarsson 6
Gat ekkert gert í mörkunum og gerði allt sem hann átti að gera.
Valgeir Lunddal Friðriksson 7
Komst mjög vel frá sínu, lokaði á vinstra kantmann Wales sem komst aldrei í takt.
Sverrir Ingi Ingason 6
Kom aftur inn eftir meiðsli, spurning með staðsetningu hans í fyrsta markinu en gerði þess utan vel.
Daníel Leó Grétarsson 6
Komst fínt frá sínu í dag.
Kolbeinn Birgir Finnsson (´46) 3
Hálf utan við sig í fyrsta markinu og í öðru markinu var han gjörsamlega sofandi og fékk manninn á bak við sig. Slakasti landsleikur sem hann hefur spilað
Jóhann Berg Guðmundsson (´82) 7
Spilaði boltanum vel frá sér og sá um að stýra spili liðsins.
Stefán Teitur Þórðarson 7
Kraftmikil og góð frammistaða Stefáns sem er því miður í banni í næsta leik.
Willum Þór Willumsson (´46) 4
Komst aldrei í takt við leikinn og missti boltann einu sinni á frábærum stað þegar íslenska liðið var í séns á að fá dauðafæri.
Jón Dagur Þorsteinsson 7
Líflegasti leikmaður liðsins, mistækur fyrstu mínútur leikinn en var síðan góður.
Andri Lucas Guðjohnsen 7
Kraftmikil frammistaða, hann og Orri þurfa nokkra leiki til að læra inn á hvorn annan
Orri Steinn Óskarsson 7
Öflugur í dag, vantaði svo lítið upp á að hann myndi skora
Varamenn:
Mikael Egill Ellertsson (´46) 5
Komst í tvö geggjuð færi í upphafi seinni hálfleiks en var í krummafót.
Logi Tómasson (´46) 9
Þvílík innkoma bakvarðarins, skoraði eitt glæilsegt mark til að minnka muninn í 1-2. Hann á svo annað markið skuldlaust þó það skráist sem sjálfsmark.