„Bara mjög vel, spenntur fyrir þessum leikjum. Flottir leikir og allir eru klárir,“ segir Brynjólfur Willumsson framherji Groningen í Hollandi og íslenska landsliðsins.
Landsliðið er komið saman fyrir leiki gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni en Brynjólfur var kallaður inn í hópinn fyrir þetta verkefni.
„Þetta kom ekkert á óvart, maður er stoltur af því að vera valinn í hópinn. Maður gerir sitt besta með félagsliði og vonast eftir þessu,“ sagði Brynjólfur.
Brynjólfur hafði spilað í Noregi síðustu ár en tók skrefið til Hollands í sumar og hefur notið þess.
„Klárlega, þegar þú ferð að spila í sterkari deild. Ef þú ert að spila vel þar, þá eykur það líkurnar á að komast í landsliðið. Maður reynir að njóta þess að vera hérna.“
„Þetta hefur farið vel af stað í Hollandi, þessi tvö góðu mörk og svo bara að byggja ofan á það.“
Hann segir talsverðan mun á því að hafa samið við Groningen „Það er stærðarmunur á klúbbunum, bróðir minn hafði spilað þarna og mér leist vel á deildina,“ sagði Brynjólfur um bróðir sinn, Willum Þór sem einnig er í landsliðinu.
„Það er mjög fínt að vera með honum í landsliðinu, við hittumst ekki oft og gott að geta verið saman hérna.“