
Mason Greenwood hefur ákveðið að spila fyrir landslið Jamaíka hér eftir samkvæmt frétt The Sun.
Greenwood, sem gekk í raðir Marseille frá Manchester United í sumar, á að baki einn A-landsleik fyrir Englands hönd. Hann kom einmitt gegn Íslandi á Laugardalsvelli árið 2020.
Faðir Greenwood er frá Jamaíka og undanfarin ár hefur því oft verið velt upp hvort sóknarmaðurinn velji að spila fyrir hönd landsins, en það er erfitt að sjá leið fyrir hann aftur í enska landsliðið, ekki síst vegna mála hans utan vallar.
Nú hefur knattspyrnusamband Jamaíka óskað eftir því formlega við enska knattspyrnusambandið að Greenwood skipti yfir. Leikmenn mega það svo lengi sem þeir spila ekki fleiri en þrjá A-landsleiki fyrir annað lið fyrir 21 árs aldur.
Steve McClaren, fyrrum aðstoðarþjálfari Manchester United, er landsliðsþjálfari Jamaíka. Hann tók við af Heimi Hallgrímssyni í sumar.