Framtíð Jadon Sancho er í óvissu en hann á ennþá eftir tvö ár af samningi sínum við Manchester United. Einbeiting Sancho er þó á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem hann er í láni hjá Borussia Dortmund.
Dortmund mætir Real Madrid á laugardag á Wembley en Sancho hefur svo sannarlega sannað ágæti sitt síðustu vikur.
Sancho lenti í stríði við Erik ten Hag stjóra Manchester United síðasta haust og var bannað að æfa með aðalliði liðsins.
Ten Hag sagði þá að Sancho hefði verið latur á æfingum og leikmaðurinn svaraði fyrir sig opinberlega og sagði þjálfarann ljúga. Sancho neitaði að biðjast afsökunar vegna þess.
Nú segja ensk blöð að Sancho hafi eftir atvikið hagað sér eins og sannur atvinnumaður, hann hafi mætt á allar æfingar með U18 ára liði félagsins og lagt sig fram.
Það er þvert á það sem Ten Hag hefur sagt og segir Daily Mail hafa eftir þjálfurum í U18 ára liðinu að Sancho hafi hegðað sér og æft eins og maður í fjóra mánuði með liðinu.