Það flugu skot á milli þegar sparkspekingurinn, Kristján Óli Sigurðsson og Mikael Nikulásson þjálfari KFA tókust á í Þungavigtinni í gær.
Lætin byrjuðu þegar Kristján valdi lið umferðarinnar í Bestu deildinni en hann valdi Anton Ara Einarsson markvörð Breiðabliks í markið.
Mikael var á því að þarna hefði átt að vera Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA sem varði frábærlega undir lok leiksins í 1-1 jafntefli gegn Fram.
„Í búrinu er Anton Ari, fékk á sig mark úr víti en var mjög öruggur í öllum aðgerðum,“ sagði Kristján í Þungavigtinni en Mikael sakaði hann um velja alltaf of marga Blika.
„Það er aldrei undir 3-4 Blikum í liðinu, hann er með markvörðinn úr Blikum sem varði eitt skot fyrir utan teig. Af hverju ertu ekki með markvörðinn úr ÍA sem bjargaði stigi í restina?.“
Kristján stóð fastur á sínu. „Ég tók besta markvörðinn úr þessari umferð,“ sagði Kristján.
Mikael hélt áfram að bauna á Kristján fyrir að velja marga Blika í liðið. „Þú ert svo æðislegur, borgar Jason Daði sér fyrir að vera í liðinu? Ég er að spá í því.“
Kristján þvertók fyrir það og baunaði á Mikael. „Ég er ekkert með Blika í hverri umferð, þetta var stærsti leikurinn í þessari umferð. Þú mátt taka þessar blammeringar og troða þeim upp í loðna, gríska jógurt rassgatið þitt.“