Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakklands hefur valið hóp liðsins sem mun spila á EM í Þýskalandi í sumar.
Ein ákvörðun Deschamps kom verulega á óvart en hann valdi miðjumanninn N’Golo Kante í hópinn.
Kante hefur ekki verið valinn í síðustu verkefni Frakklands en hann er 32 ára gamall og leikur í Sádi Arabíu.
Búist var við að Kante myndi ekki fá tækifæri á EM að þessu sinni en Deschamps hefur ákveðið að treysta á reynsluboltann.
Kante hefur glímt við þónokkur meiðsli undanfarin ár en hann gerði garðinn frægan sem leikmaður Leicester og svo Chelsea.
Deschamps hefur nú útskýrt af hverju hann ákvað að gefa Kante tækifærið á nýjan leik.
,,Hann hefur spilað heilt tímabil, svo sannarlega ekki í Evrópu en hann er búinn að ná sér að fullu líkamlega,“ sagði Deschamps.
,,Við getum rætt um deildina í Sádi Arabíu og styrk hennar en hann hefur spilað yfir 4000 mínútur á tímabilinu, það eru meira en 40 leikir. Hann er engill og öllum líkar við hann.“