Jadon Sancho skráði sig á spjöld sögunnar með marki í tapi Dortmund á laugardag.
Dortmund tapaði 4-1 fyrir RB Leipzig en Sancho hafði komið Dortmund yfir í leiknum.
Þetta var þriðja mark Sancho frá því hann kom til Dortmund á láni frá Manchester United í janúar en það fertugasta í efstu deild Þýskalands yfirhöfuð. Englendingurinn var keyptur til United frá Dortmund á sínum tíma.
Sancho er þar með orðinn markahæsti Englendingur í sögu efstu deildar í Þýskalandi. Tók hann fram úr Tony Woodcock, fyrrum leikmanni Arsenal, Nottingham Forest og fleiri liða.
„Súrsætt,“ sagði Sancho um afrekið á laugardag, enda tapaði hans lið.