Gylfi Þór Sigurðsson var að vonum brattur eftir 3-0 sigur Vals á FH í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í kvöld.
„Ég held við höfum bara spilað nokkuð vel. Við stjórnuðum leiknum alveg frá fyrsta marki og siglum þessu heim í seinni hálfleiknum,“ sagði Gylfi við RÚV eftir leik, en Valur komst yfir strax á 5. mínútu leiksins.
Gylfi er uppalinn í FH og var spurður að því hvernig tilfinningin hafi verið að mæta þeim.
„Bara mjög fín. Einbeitingin var bara á að vera áfram í keppninni í næstu umferð. Eftir tvo leiki þar sem við vorum ekki nógu ánægðir með úrslitin var auðvelt að setja það til hliðar og einbeita okkur að því að spila vel í dag.“
Gylfi á sér engan óskamótherja í 16-liða úrslitunum.
„Það þarf að vinna þessi úrvalsdeildarlið ef við ætlum að fara alla leið. Ég eiginlega veit ekki hvort við viljum annað lið í efstu deild eða eitthvað annað. En kannski er bara auðveldara að spila á móti bestu liðunum, það eru bestu leikirnir.“