KSÍ og ÍTF skoða það að fara í herferð gegn veðmálafíkn og aðstoða þá sem eru langt leiddir. Þetta kemur fram í fundargerð sambandsins sem birt hefur verið.
Þorkell Máni Pétursson sem var kosinn í stjórn KSÍ í febrúar hafði talað um það þetta væri mál sem hann ætlaði að koma í gegn.
Rætt var um málið á fundi hjá KSÍ þann 17 apríl og ákveðið að stofna starfshóp sem skoðar stöðuna í íslenskri knattspyrnu.
Verði farið í verkefnið munu ÍTF og KSÍ fara saman í slíka herferð.
„Veðmálafíkn. Þorkell Máni Pétursson kynnti hugmyndir um fræðslu og aðstoð á vegum KSÍ. Stjórn KSÍ samþykkti að stofna starfshóp til að rýna í stöðu þessara mála í íslenskri knattspyrnu og mögulegar leiðir til fræðslu. Einnig yrði hópnum falið að kanna hvort og þá hvernig hægt sé að aðstoða þá sem eru langt leiddir í veðmálafíkn,“ segir í fundargerð.
Þorkell Máni telur vandamálið alvarlegt í heimi fótboltans hér á landi og vill sjá sambandið fara í forvarnir frekar en að bíða eftir því að einhver misstígi sig og verði dæmdur í bann.