Kristján Óli Sigurðsson sérfræðingur Þungavigtarinnar og fyrrum leikmaður Breiðabliks segir dómara landsins skíthrædda við Víkinga og dæma með þeim.
Kristján Óli lét orðin falla í Þungavigtinni í dag eftir 4-1 sigur Víkings á Breiðablik í gær þar sem löglegt mark var tekið af Benjamin Stokke í stöðunni 2-0 fyrir Víkinga.
„Þeir skora löglegasta mark sumarsins Blikarnir, þetta er bara galið. Víkingar byrja sumarið á því að bullya dómarana í meistara meistaranna, urða yfir þá og fá tvö rauð spjöld. Dómarar á íslandi eru skíthræddir við Víkinga, þeir þurfa að stíga upp,“ sagði Kristján Óli.
Hann minntist á mark sem Fram skoraði gegn Víkingi í 2. umferð sem var ekki dæmt gilt á mjög umdeildan hátt.
„Víkingar eru með alveg nógu gott lið til að vinna þetta mót án þess að dómarar hjálpi þeim, þetta var rán í Úlfarsárdalnum og þetta í gær er vendipunktur leiksins.“
Mikael Nikulásson, þjálfari KFA tók þá til máls. „Þetta var rán í Úlfarársdalnum, þetta er ekki jöfnunarmark hjá Blikum, Víkingur vann 4-1, þeir hefðu unnið þennan leik sama hvað. Þetta var bara mark.“