Ben Foster, fyrrum markmaður enska landsliðsins, var langt frá því að vera hrifinn af frammistöðu miðjumannsins Casemiro í leik Manchester United við Bournemouth um síðustu helgi.
Casemiro hefur fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína í vetur og leit ekki vel út í seinna marki Bournemouth í 2-2 jafntefli.
United heldur þó áfram að treysta á þennan ágæta Brasilíumann en Foster var gríðarlega vonsvikinn með hans framlag um síðustu helgi og tjáði sig um málið á eigin YouTube rás.
,,Seinna markið, Casemiro, við erum að tala um djúpan miðjumann. Hann á að vera þessi vél, þessi rotta á miðjunni, einhver sem stöðvar sóknir,“ sagði Foster.
,,Þetta mark sem þeir skoruðu var til skammar, til háborinnar skammar. Hann fær frelsi og pláss til að ná þessu skoti.“
,,Casemiro tekur eftir þessu á síðustu sekúndu, hann reynir lauslega og skilur fótinn eftir. Ef ég væri þjálfari liðsins þá væri þessi djúpi miðjumaður tekinn af velli.“