Tveimur leikjum er lokið í 8-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar það sem af er kvöldi. Um seinni leiki í 8-liða úrslitum var að ræða og var framlengt í báðum.
Í Flórens tók Fiorentina á móti Viktoria Plzen. Fyrri leik liðanna í Tékklandi lauk með markalausu jafntefli og það sama má segja um þennan í venjulegum leiktíma. Heimamenn voru þá mann fleiri frá því um miðjan seinni hálfleik.
Það var því farið í framlengingu og þar skoraði Fiorentina tvisvar og er komið áfram. Mörkin gerðu Nicolas Gonzalez og Cristiano Biraghi.
Það var meira fjör í Frakklandi þar sem Lille tók á móti Aston Villa. Fyrri leik liðanna á Englandi lauk með 2-1 sigri Villa.
Yusuf Yazici kom Lille yfir á 15. mínútu og staðan í hálfleik var 1-0. Á 68. mínútu skoraði Benjamin Andre svo annað mark Lille.
Það virtist sem svo að Lille væri á leið áfram en á 87. mínútu minnkaði Matty Cash muninn fyrir Villa og jafnaði þar með einvígið.
Því var farið í framlengingu en þar var ekkert skorað. Því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar hafði Aston Villa betur og er liðið komið í undanúrslit.