Valur og Víkingur R. mætast í dag, þriðjudaginn 16. apríl, í Meistarakeppni KSÍ kvenna. Leikurinn fer fram á N1-vellinum Hlíðarenda og hefst hann kl. 19:30. Bein útsending verður frá leiknum á RÚV og miðasala fer fram í Stubbur app.
Þetta er í annað sinn sem keppt er um Svanfríðarbikarinn, en það er farandbikar til heiðurs Svanfríði Guðjónsdóttur. Svanfríður hefur unnið ötullega að uppbyggingu knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hún var fyrsta konan sem kjörin var í stjórn Knattspyrnusambands Íslands en hún hafði starfað í kvennanefnd KSÍ áður en hún var kosin í stjórn. Svanfríður vann mikið með landsliði kvenna í knattspyrnu um árabil, útvegaði æfingaleiki og var því til halds og trausts á ýmsan hátt. Einnig starfaði hún mikið í kringum kvennaknattspyrnuna í Breiðabliki á fyrstu árum hennar en dóttir hennar spilaði á þeim árum með Breiðabliki og einnig með landsliðinu. Svanfríður var meðlimur í Umbótanefnd ÍSÍ fyrir konur í íþróttum um árabil og vann þar frábært starf að hagsmunamálum kvenna í íþróttahreyfingunni.
Valur hefur unnið keppnina átta sinnum, en aðeins Breiðablik hefur unnið oftar eða 10 sinnum. Víkingur R. hefur hins vegar aldrei unnið keppnina.
Þórður Þorsteinn Þórðarson dæmir leikinn en honum til aðstoðar verða þeir Sveinn Ingi Sigurjónsson Waage og Guðni Freyr Ingvason. Fjórði dómari er Bergrós Lilja Unudóttir.