Gary O’Neill, stjóri Wolves, var bálreiður í gær eftir leik sinna manna við West Ham sem tapaðist 2-1.
Wolves taldi sig hafa jafnað metin undir lok leiks er Max Kilman skoraði eftir fast leikatriði en að lokum var rangstaða dæmd.
Dómurinn er gríðarlega umdeildur en Tawanda Chirewa var dæmdur brotlegur og var talinn hafa áhrif á Lukasz Fabianski, markmann West Ham.
O’Neill var öskuillur eftir leikinn í gær og baunaði hressilega á dómaratríóið sem fékk í raun falleinkunn fyrir frammistöðu sína í þessum leik.
,,Þetta var ömurleg, ömurleg og ömurleg ákvörðun. Ég get ekki skilið þetta. Ég hef rætt við David Moyes og hann sagði það sama,“ sagði O’Neill.
,,Þetta var aldrei rangstaða, Lukasz Fabianski sagði líka það sama, hann var sannfærður um að þetta væri ekki rangstaða.“
,,Það er klikkun að dómari í ensku úrvalsdeildinni geti horft á skjáinn og dæmt þetta svo rangt.“