Vinirnir Hörður Magnússon og Heimir Guðjónsson mættu í nýjasta þátt hlaðvarpsins Chess After Dark. Þar var leikur íslenska karlalandsliðsins gegn Úkraínu að sjálfsögðu tekinn fyrir.
Um var að ræða úrslitaleik um sæti á EM en Ísland vann Ísrael 4-1 í undanúrslitum. Leikurinn gegn Úkraínu tapaðist hins vegar 2-1 þrátt fyrir hetjulega baráttu. Andri Lucas Guðjohnsen byrjaði leikinn en var tekinn út af fyrir Orra Stein Óskarsson eftir rúman klukkutíma. Þetta átti Hörður bágt með að skilja.
„Ég hefði aldrei tekið Andra Lucas út af á móti Úkraínu. Það var engin ástæða til. Hann var búinn að gera frábæra hluti, berjast, standa í návígum, vinna innköst, aukaspyrnur, djöflast í varnarmönnum. Það sem hann var beðinn um,“ sagði hann í þættinum.
„Þetta var óskiljanleg skipting. Staðan var 1-1 og Úkraínumenn ofan á, en mér fannst þetta ekki rétta augnablikið til að gera breytingu.“