Max Eberl, yfirmaður knattspyrnumála Bayern Munchen, hefur svarað umboðsmanni bakvarðarins Alphonso Davies.
Umboðsmaður Davies tjáði sig opinberlega í vikunni og vill meina að Bayern sé að koma illa fram við sinn mann.
Davies er sterklega orðaður við Real Madrid þessa dagana en hann verður samningslaus á næsta ári.
Bayern er búið að bjóða Davies nýjan samning en sá kanadíski ku vera ansi óánægður með það tilboð.
Bayern heimtar að Davies gefi liðinu svar strax í næsta mánuði eða þá koma með tilboð frá öðru félagi sem hægt er að samþykkja.
Það finnst umboðsmanni Davies ósanngjörn meðferð en hann vildi fá sumarið til að taka ákvörðun um eigin framtíð.
,,Að okkar mati höfum við boðið honum sanngjarnt og rétt samningstilboð,“ sagði Eberl í samtali við Sky Germany.
,,Á einhverjum tímapunkti þarftu að segja já eða nei, þannig er staðan. Ég get ekki beðið fram á Jóladag. Það er eðlilegt að þurfa að taka ákvörðun, hvort sem það sé Alphonso Davies eða annar leikmaður.“