Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Wroclaw
Leikur Íslands og Úkraínu á þriðjudag fer fram á Tarczynski Arena, heimavelli Slask Wroclaw. Einn leikmaður úr íslenska hópnum hefur spilað með liðinu.
Ísland og Úkraína mætast í hreinum úrslitaleik á þriðjudag en spilað er í Póllandi vegna stríðsátaka í Úkraínu.
Tarczynski Arena, eða Wroclaw Stadium, tekur tæplega 43 þúsund manns í sæti og er allur hinn glæsilegasti. Var hann byggður fyrir EM í Póllandi og Úkraínu, sem haldið var 2012.
Einn leikmaður íslenska landsliðshópsins í dag spilaði með Slask Wroclaw en það er miðvörðurinn Daníel Leó Grétarsson.
Var hann hjá félaginu frá 2022 til 2023. Þaðan fór hann til Sönderjyske í Danmörku, þar sem hann spilar í dag.
Daníel Léo var óvænt í byrjunarliði Íslands í síðasta leik gegn Ísrael og ekki ósennilegt að hann byrji einnig gegn Úkraínu. Hann átti dapran fyrri hálfleik gegn Ísrael og gaf meðal annars víti. Hann átti þó betri leik í seinni hálfleik.