Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Á morgun mætir íslenska karlalandsliðið því ísraelska í undanúrslitum umspils um sæti á EM í Þýskalandi.
Þó Ísland eigi nokkuð góðan möguleika í leiknum er ljóst að verkefnið verður strembið, enda Ísrael með nokkra mjög sterka leikmenn.
Hér eru teknir saman fjórir sem Ísland þarf að varast í leiknum, sem hefst klukkan 19:45 annað kvöld hér í Búdapest.
Oscar Gloukh
19 ára mjög spennandi miðjumaður sem er á mála hjá RB Salzburg. Hann er fastamaður þar og spilaði til að mynda alla leiki liðsins í Meistaradeild Evrópu fyrir áramót. Red Bull félögin eru þekkt fyrir að fá til sín unga og efnilega leikmenn með möguleika á að ná langt og gæti Gloukh orðið einn af þeim.
Eran Zahavi
Frábær sóknarmaður með mikla reynslu. Þessi 36 ára gamli sóknarmaður er sennilega enn besti leikmaður Ísraela, eins og hann hefur verið undanfarin ár. Spilar með Maccabi Tel Aviv í heimalandinu.
Anan Khalaili
Öskufljótur kantmaður Maccabi Haifa sem á framtíðina fyrir sér. Í samtali við undirritaðan líkti ísraelskur blaðamaður honum við Kylian Mbappe þegar hann er kominn á ferðina.
Muhammad Abu Fani
Öflugur miðjumaður Ferencvaros, sem spilar einmitt í Búdapest.