Sádar ætla að taka til sín á leikmannamarkaðnum í sumar, eins og í fyrra. Horfa þeir til að mynda til Real Madrid.
Spænski miðillinn Marca segir fjóra leikmenn Real Madrid vera á blaði félaga í sádiarabísku deildinni.
Luka Modric er þar á meðal. Svo virðist sem dagar þessa 38 ára gamla snillings séu senn taldir í spænsku höfuðborginni og að hann fari þegar samningur hans rennur út í sumar. Sádí kæmi vel til greina sem næsti áfangastaður.
Þá hafa Sádar einnig áhuga á Nacho Fernandez, sem einnig er að renna út á samning og ekki er víst hvort hann veðri framlengdur.
Bakvörðurinn Ferland Mendy er þá einnig á blaði en þar gæti spilað inn í að Alphonso Davies, leikmaður Bayern Munchen, er sterklega orðaður við Real Madrid fyrir sumarið.
Síðasti leikmaðurinn í þessum fjögurra manna hópi er Lucas Vazquez. Samningur hans er að renna út en líklegt þykir þó að honum verði boðinn nýr.