Kyle Walker var í síðustu viku gestur í hlaðvarpi hjá Rio Ferdinand þar sem hann ræddi um allt milli himins og jarðar. Eitt af því sem hann var spurður að var hver væri mesti drykkjumaðurinn í herbúðum Manchester City.
Flestir hefðu búist við því að það væri Jack Grealish enda stal hann senunni þegar City vann þrefallt síðasta vor, Grealish tók nokkra daga í röð þar sem hann kýldi hressilega í sig.
En svo er ekki. „John Stones, hann elskar að djamma. En hann drekkur ekki á meðan tímabilið er í gangi,“ segir Walker.
„Við fórum til Abu Dhabi á dögunum, hann fékk sér aðeins þar. Þegar hann dettur í það þá tekur hann bara heila flösku, hann blandar ekkert. Hann tekur bara flösku af tequila eða jager og drekkur beint af stút. Hann biður bara um flöskuna og drekkur hana.“
Walker segir ekkert skemmtilegra en að fagna með liðsfélögum sínum. „Ég elska það, hversu gaman er að fagna með liðsfélögum sínum. Yfirleitt tökum við þrjá daga í röð þegar við gerum þetta.“