Matheus Cunha, sóknarmaður Wolves í ensku úrvalsdeildinni, þarf að mæta fyrir rétt á næstunni vegna þess sem talið er klúður í pappírsvinnu í kjölfar hraðaksturs hans í London. Evening Standard segir frá.
Mercedes-bifreið sem Cunha var með á langtímaleigu var í júlí í fyrra tekin á myndavél um 47 kílómetra (29 mílna) hraða þar sem aðeins mátti vera á um 32 kílómetra (20 mílna) hraða.
Cunha er sakaður um að hafa ekki svarað bréfum lögreglu vegna þessa í fjóra mánuði og þarf nú að mæta fyrir rétt þann 5. apríl næstkomandi vegna málsins. Þar þarf hann að veita nánari upplýsingar um málið.
Samkvæmt upplýsingum Evening Standard fékk fyrirtækið sem leigði Cunha bílinn fyrst bréf frá lögreglu vegna hraðakstursins og veitti það nafn Cunha, sem fékk þá bréf sent heim til sín.
Þar fékk Brasilíumaðurinn fjögurra vikna frest til að svara og svo meira að segja viku til viðbótar. Hann svaraði ekki.
Cunha sagðist í janúar á þessu ári vera saklaus í þessu máli og að hann hafi þegar veitt upplýsingar um hver hafi verið að keyra bifreiðina þegar hún náðist á myndavél.
Segir hann að starfsmaður Wolves geti borið vitni í máli hans þar sem hún hafi borðið ábyrgð á því að láta vita hver hafi verið að keyra bílinn.