Tveir stuðningsmenn Brighton urðu fyrir grófri árás í Róm í aðdraganda leiks liðsins gegn heimamönnum í Roma í kvöld. Það er greint frá þessu í ítölskum miðlum.
Atvikið átti sér stað í gærkvöldi fyrir utan veitingastað í ítölsku höfuðborginni. Voru mennirnir, 27 og 28 ára gamlir, stungnir, lamdir og eigum þeirra rænt af sex til sjö manna gengi með grímur.
Árásarmennirnir náðu að flýja af vettvangi áður en lögregla mætti á svæðið. Ensku stuðningsmennirnir voru fluttir á sjúkrahús og er hvorugur þeirra alvarlega slasaður.
Brighton og Roma mætast í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.