Sem stendur er líklegra að Xabi Alonso taki við Bayern Munchen en Liverpool. Þetta segir Florian Plettenberg hjá Sky í Þýskalandi.
Alonso er að gera frábæra hluti sem stjóri Bayer Leverkusen og er tíu stigum á undan Bayern á toppi deildarinnar sem stendur.
Thomas Tuchel mun hætta sem stjóri Bayern eftir tímabilið og það sama má segja um Jurgen Klopp hjá Liverpool.
Talið er að annað þessara félaga muni landa Alonso en ef hann fer segir Plettenberg að líklegra sé að Bayern verði fyrir valinu. Ástæðan ku vera sú að Spánverjinn og hans teymi telji það ekki rétt skref að koma á eftir goðsögninni sem Klopp er og hans árangri hjá Liverpool.
Bayern er hóflega bjartsýnt á að það muni landa Alonso en það mun kosta á bilinu 13-21 milljón evra að fá hann frá Leverkusen.
Alonso lék fyrir bæði Bayern og Liverpool á leikmannaferlinum við góðan orðstýr.