Arsenal skráði sig á spjöld sögunnar með stórsigri á Sheffield United í gærkvöldi.
Martin Ödegaard kom Arsenal yfir á 5. mínútu og átta mínútum síðar setti Jayden Bogle fyrirgjöf Bukayo Saka í eigið net. Arsenal lék á als oddi og á 15. mínútu skoraði Gabriel Martinelli þriðja mark Arsenal.
Kai Havertz kom Arsenal í 4-0 á 25. mínútu leiksins og átti Declan Rice þá eftir að skora fimmta mark gestanna fyrir hlé. Arsenal lét eitt mark duga í seinni hálfleiknum en það gerði Ben White á 58. mínútu. Lokatölur 0-6.
Arsenal varð með sigrinum fyrsta enska liðið til að vinna þrjá útileiki í röð með minnst fimm marka mun.
Skytturnar unnu Burnley 0-5 í síðasta útileik og þar áður vann liðið West Ham 0-6.