Paul Tierney dómari í leik Nottingham Forest og Liverpool gerði mistök þegar hann lét Liverpool fá boltann en ekki Nottingham eftir höfuðhögg.
Þetta atvik átti sér stað skömmu fyrir sigurmark Darwin Nunez sem kom í uppbótartíma en Liverpool vann 1-0 sigur.
Stuðningsmenn og leikmenn Nottingham voru ósáttir með dómarann sem hefði átt að láta Nottingham fá boltann.
Ástæðan var sú að Ibrahima Konate fékk höfuðhögg og var leikurinn stöðvaður vegna þess. Mark Liverpool kom hins vegar tveimur mínútum síðar.
Eiður Smári Guðjohnsen segir eðlilegt að mistök eigi sér stað. „Það eiga að vera einhverskonar tímamörk á það hversu langt aftur í tíman við förum, þrátt fyrir að dómarinn hafi gert mistök. Við erum aðeins að gleyma því að dómarinn er bara mannlegur og gerir mistök eins og leikmenn og allir, hvort sem það er á hliðarlínunni eða inn á vellinum,“ sagði Eiður á Vellinum á Símanum í gær.