Eins furðulega og það kann að hljóma fær stjarnan Ilias Chair enn að spila með liði Queens Park Rangers sem leikur í næst efstu deild Englands.
Chair spilaði með QPR í gær sem vann 2-1 sigur á Rotherham og lagði upp annað mark liðsins í leiknum.
Miðjumaðurinn var í vikunni dæmdur í eins árs fangelsi í heimalandi sínu, Belgíu, fyrir að ráðast á vörubílstjóra sumarið 2020.
Chair réðst á manninn með grjóti sem varð til þess að hann stórslasaðist og höfuðkúpubrotnaði.
Chair er hins vegar enn laus en ástæðan er sú að fangelsin í Belgíu eru troðfull og er ólíklegt að hann þurfi að sitja inni einhvern tímann á næstunni.
Belgía er í miklum vandræðum þegar kemur að þessum málum en enginn í landinu sem hefur fengið þriggja ára dóm eða minna hefur þurft að sitja inni síðan í september 2022.