Manuel Neuer, markvörður og fyrirliði Bayern Munchen, segir að leikmenn þurfi að taka ábyrgð fyrir brottför Thomas Tuchel.
Tuchel mun yfirgefa Bayern í sumar eftir stutt stopp á Allianz Arena en gengið í vetur hefur ekki verið of gott.
Tuchel þykir vera mjög fær knattspyrnustjóri og hefur einnig þjálfað lið eins og Dortmund, PSG og Chelsea.
Neuer segir að slæmt gengi Bayern sé ekki bara Tuchel að kenna og að leikmenn þurfi að átta sig á eigin frammistöðu.
,,Þetta gefur vonda mynd af öllum leikmönnum liðsins því við náðum ekki að vinna með topp þjálfara,“ sagði Neuer.
,,Það er ekki alltaf kennaranum að kenna ef einkunnirnar eru slakar. Við þurfum að taka ábyrgð. Við viljum klára tímabilið eins og fagmenn áður en leiðir skilja.“