Það var hart tekist á í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni þegar meðlimir þáttarins opinberuðu snemmbúna spá sína fyrir Bestu deild karla í sumar.
Sparkspekingurinn Mikael Nikulásson er KR-ingur og setti hann sína menn í 2. sætið. Meðbyr hefur verið með Vesturbæingum undanfarið. Auknir fjármunir hafa verið settir inn í félagið og öflugir leikmenn eru mættir.
„Þú hendir þeim upp um fjögur sæti bara fyrir það að fá Aron Sigurðarson og Alex Þór Hauksson,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason þáttastjórnandi í kjölfar þess að Mikael opinberað spá sína.
„Hver leiðir Mikael út í járnum á eftir?“ skaut Kristján Óli Sigurðsson inn í léttur í bragði.
Mikael færði rök fyrir máli sínu.
„KR með Aron Sig og Alex er besta miðjan í deildinni ef þeir delivera. Ég hef engar áhyggjur af sóknarlínu KR ef miðjumennirnir standa sig. Benóný Breki er frábær framherji og mun brillera næsta sumar.
Vandamálin eru í vörninni og þeir styrkja hana,“ sagði hann að endingu um málið.