Tælenska lögreglan hefur varað stuðningsmenn Liverpool við svindlurum sem eru að óska eftir peningum fyrir flugi Xabi Alonso frá Þýskalandi til Englands.
Alonso, sem hefur vakið verðskuldaða athygli sem stjóri Bayer Leverkusen í Þýskalandi, þykir líklegastur til að taka við Liverpool eftir að Jurgen Klopp hættir í sumar. Hann tilkynnti óvænt að hann myndi stíga til hliðar eftir tímabilið í síðustu viku.
Svindlarar í Tælandi hafa ákveðið að nýta sér þetta og óska eftir því að fólk leggi upp þúsund íslenskar krónur á reikning til að borga fyrir flug Alonso til Englands.
„Ég er Xabi Alonso. Ég verð stjóri Liverpool á næstu leiktíð en á ekki mikinn pening fyrir flugi til Liverpool,“ stendur á síðu svindlaranna sem lögreglan varar nú við.