Rúnar, sem er goðsögn í Vesturbænum, yfirgaf KR í haust í kjölfar þess að samningur hans var ekki endurnýjaður. Gregg Ryder tók við sem þjálfari og síðan hafa menn á borð við Aron Sigurðarson og Alex Þór Hauksson komið til félagsins úr atvinnumennskunni. Talið er að KR ætli að setja enn meiri pening í fleiri leikmenn.
Í sjónvarpsþætti 433.is var Rúnar spurður að því hvort hann hafi séð fyrir að auknir fjármunir væru á leið inn í KR áður en hann fór.
„Í raun og veru ekki. Það var auðvitað kominn tími til að settur yrði peningur í leikmenn. Ég svosem veit ekki hvað er að koma eða hvernig menn eru að gera þetta núna. Það er búin að vera öðruvísi vinna en undanfarin ár með mér, hvort sem hún var skipulögð eða ekki,“ sagði Rúnar.
„KR á að mínu mati alltaf að vera með lið sem getur barist um titla og það þarf að bakka það upp með leikmönnum. Það er verið að gera það núna en var ekki gert undir minni stjórn síðustu 2-3 ár, að mínu mati.“
Rúnar neitar því ekki að hafa viljað sjá aukna fjármuni koma inn í félagið á meðan hann var þar en dvelur ekki við það nú.
„Það myndu allir þjálfarar vilja fá fullt af peningum til að nota en það er ekki þar með sagt að þú vinnir eitthvað. Þó þú náir í bestu leikmennina þarftu að búa til gott lið, móral og umgjörð.
Ef við tökum árið í fyrra hefði maður viljað fá eitthvað svona. En ég hef unnið með þá leikmenn sem ég fæ. Þó maður hafi reynt að fá eitthvað annað hafa svörin stundum verið að það sé ekki til peningur. Þá þarf maður bara að vinna með það, ég fer ekkert að grenja. En þá þarf maður líka að vera tilbúinn að lækka væntingarnar í stað þess að vera með einhvern gorgeir og þykjast geta unnið deildina með lið sem kannski á ekki séns á því,“ sagði Rúnar.
Viðtalið í heild er í spilaranum.