Brynjar skrifaði aðsenda grein sem birtist á Fótbolta.net í gær. Þar vandar hann Vöndu og KSÍ ekki kveðjurnar en ástæðan fyrir skrifum Brynjars er að í mars mun íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mæta Ísrael í umspili um laust sæti á Evrópumótinu í sumar. Brynjar telur það skjóta skökku við að KSÍ neiti að spila gegn Rússlandi en spili með glöðu geði gegn Ísrael.
„Stjórn KSÍ hefur ákveðið að ekkert íslenskt knattspyrnulandslið muni leika við landslið frá Rússlandi meðan á hernaði Rússa stendur,“ sagði í yfirlýsingu KSÍ sem kom út í febrúar 2022. Óhætt er að segja að erfitt hafi verið að finna manneskju á landinu sem setti sig upp á móti til þessari ákvörðun. Í nóvember í fyrra kom í ljós að landslið Íslands myndi mæta Ísrael í umspili í undankeppni EM karla. Um leið og það varð ljóst hugsaði ég „Vá, þetta setur KSÍ í erfiða stöðu,“ og að ýmsu þyrfti að svara. Vegna starfs míns sem blaðamanns ákvað ég reyna fá svör frá ýmsum aðilum um málið. Ég hafði samband við Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ, og Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, til að forvitnast hvort að stæði til að keppa við Ísrael í ljósi þeirra stríðsátaka (og mögulegs þjóðarmorðs) sem standa nú yfir á Gaza. Þegar þetta er skrifað er talið að 26 þúsund Palestínubúar hafi verið drepnir á undanförnum mánuðum. Einnig vildi ég vita, hvort ef leikurinn gegn Ísrael færi fram þýddi að Ísland myndi hér eftir leika við Rússland burt séð frá innrás þeirra í Úkraínu,“ skrifaði Brynjar meðal annars.
Máni er ósammála Byrnjari og bendir á að UEFA hafi meinað Rússum að taka þátt í keppnum á þeirra vegum og að aðrar þjóðir myndu ekki spila við þá. Það sama eigi ekki við um Ísrael og að Ísland sé eina liðið sem er að fara að keppa við ísraelska landsliðið á næstu misserum.
„Vanda hefur staðið sig frábærlega sem formaður. Tók við formennsku á erfiðum tíma og hefur skilað sínu. Það er oft góð hugmynd að setja sig í spor annara áður en vaðið er af stað. Það væri kannski rétt að spyrja sig afhverju Íslenska knattspyrnu sambandið hefur ekki neitað að spila við Ísrael. Fyrir því geta einmitt verið augljósar skýringar. Í fyrsta lagi Þá var mjög auðvelt að neita að spila við Rússland þegar allar nágranna þjóðirnar og UEFA voru búin að segjast ekki vilja spila við Rússa. Nú eru Íslendingar eina þjóðin sem á leik framundan við Ísrael. Ef þessi leikur við Ísrael fer vel og næsti á eftir geta þeir skilað ca milljarði inní Knattspyrnusambandið. Sá peningur skilar sér að mestu til félagana í landinu. Félögin hafa engan áhuga á að verða af þeim peningum. Enda ræðst rekstur sambandsins töluvert af því hvernig landsliðunum okkar gengur. Þar sem afrekssjóður ÍSÍ lítur knattspyrnu langstræstu íþrótt á íslandi sömu augum og aðrar íþróttir er nauðsynlegt fyrir sambandið að sækja þá peninga sem þeir geta. Vanda getur ekki tekið svona ákvöðrun ein hún liggur hjá stjórn KSÍ og fyrst og síðast hjá félögunum í landinu,“ skrifar Máni meðal annars á Facebook-síðu sína.
Máni segir það jafnframt hægara sagt en gert að neita að taka þátt í leikjum á vegum UEFA og FIFA.
„Í öðru lagi er UEFA/FIFA og þessi batterí mjög sérstök fyrirbæri afskipti ríkisstjórna er bönnuð og hverskyns pólitík í raun allt nema spilling. (Hún virðist vera ágætlega liðin). Fyrir vikið veit maður ekkert uppá hverju þessi sambönd gætu tekið ef KSÍ uppá sitt einsdæmi tæki uppá því að neita að spila við Ísrael. Þau gætu tekið það illa upp og bannað Íslandi þáttöku á öllum mótum hvort sem það er karla eða kvenna. Blikar lendu í því að spila við lið frá Ísrael í sambandsdeildinni og þekkjandi forráðamann Blika þá veit ég að þeim ofbýður stríðsrekstur ráðamanna í Ísrael. Þeir urðu samt að spila leikinn. Hefðu þeir neitað hefði það getað kallað á bann úr evrópukeppnum ekki bara fyrir þá heldur líka mögulega önnur íslensk lið.“
Máni segist átta sig á að Brynjari gangi gott eitt til með pistli sínum en að hann beini gagnrýni sinni í rangan farveg.
„Ég veit það er voða vinsælt að skila skömminni hingað og þangað. Það er hinsvegar verið að skila þessari skömm á bandvitslausan stað og allir sem vita bara eitthvað smá hljóta að sjá það. Að gera Vöndu að einhverju andliti fyrir þetta er svo heimskulegt að það nær engri átt.“