Alan Shearer, markahæsti leikmaður í sögu enska boltans segir að Marcus Rashford verði að rífa sig í gang ef hann vill ekki sjá ferill sinn fara í ruslið. Rashford, framherji Manchester United er í vanda staddur enda hringdi hann sig inn veikan í vinnuna á föstudag eftir að hafa verið á djamminu.
Rashford var staddur í Belfast í Norður-Írlandi og var á næturklúbbi þar fram undir morgun.
Hann flaug svo til Manchester með einkaþotu en þegar hann átti að mæta á æfingu þá hringdi hann sig inn veikan. Erik Ten Hag stjóri United segir að tekið verði á málinu hjá félaginu.
„Ef Ten Hag segir svona þá hlýtur eitthvað að vera í gangi,“ segir Shearer.
„Það eru miklir hæfileikar í Rashford en honum var refsað á síðustu leiktíð þegar hann mæti of seint í leik. Það er eitthvað að utan vallar eða í sambandinu hans við félagið.“
„Hann getur ekki haldið þessu áfram, hann er bara að sturta hæfileikum sínum í ruslið þessa stundina. Hann þarf aga í kringum sig, það þarf einhver að hjálpa honum.“
„Hann skoraði þrjátíu mörk í fyrra en bara fjögur á þessu tímabili. Hann virðist vera með allar heimsins áhyggjur þegar hann spilar. Hann þarf að taka á þessu núna.“