Gary Neville fyrrum fyrirliði Manchester United segir það furðulegt að horfa á Bruno Fernandes spila fótbolta, hann spili eins og knattspyrnumaður fyrir tuttugu árum.
Neville er á þeirri skoðun að Fernandes sé alltof villtur og haldi stöðu sinni illa.
„Ég horfði á Bruno á sunnudaginn gegn Tottenham, hann er hæfileikaríkasti leikmaður liðsins en hann er út um allt,“ segir Neville.
„Skilaboðin hljóta að vera þau að hann geti gert það sem hann vill, Bruno er ekki þessi týpa.“
„Ef leikmaður hjá Pep Guardiola veður út úr stöðu þá er hann mættur eftir eina eða tvær mínútu og skipar manninum að fara aftur.“
„Ten Hag gefur honum frjálsan taum, þess vegna er aldrei sami takturinn í liðinu. Þegar þinn besti miðjumaður er út um allt.“
„Þetta er eins og fyrir tuttugu árum þegar tían fékk bara frjálst hlutverk.“