Jamie O’Hara, fyrrum leikmaður Tottenham, er með ráð fyrir Chelsea sem gæti hjálpað félaginu á þessu tímabili.
O’Hara ráðleggur Chelsea að hringja í fyrrum fyrirliða sinn, John Terry, og fá hann til starfa en þónokkuð er síðan hann lagði skóna á hilluna.
Terry þekkir það þó vel hvað það þýðir að spila fyrir Chelsea, annað en margir leikmenn sem leika með liðinu í dag.
Metnaðurinn virðist ekki vera mikill hjá leikmönnum Chelsea sem hefur alls ekki verið sannfærandi á tímabilinu hingað til.
,,Það fyrsta sem þeir ættu að gera er að hringja í John Terry og fá hann í klefann til að ná til þessara leikmanna,“ sagði O’Hara.
,,Margir hafa gleymt því hvað það þýðir að spila fyrir knattspyrnulið Chelsea og það þarf að minna þá á hvað er í húfi.“
,,Ég man þegar ég spilaði gegn Chelsea og þeir voru með leikmenn eins og Terry, Michael Ballack, Frank Lampard, Ashley Cole og Didier Drogba.“
,,Þetta voru leikmenn sem mættu til leiks og náðu í úrslit á útivelli, þeir börðust fyrir úrslitunum og náðu svo frábærum árangri.“