Valtýr vitnaði í fund stjórnar KSÍ fyrir áramót sem Bryndís Einarsdóttir fjármálastjóri sat. Þar gerði hún ráð fyrir miklum halla á rekstri KSÍ 2023.
„Gert er ráð fyrir að sambandið verði rekið með verulegu tapi árið 2023, m.a. vegna árangurstengdra verkefna sem voru ekki í fjárhagsáætlun 2023 (úrslitakeppni U19 karla og kvenna og aukaleikur um laust sæti á HM U20 kvenna í Kólumbíu), þjálfaraskipta A landsliðs karla og aukins kostnaðar við flug og uppihald A landsliða,“ segir í fundargerð stjórnar KSÍ.
„Tilgreindi hún meðal annars kostnað við landsliðin, sem er orðinn gríðarlegur, því það eru alveg 10-12 manns að fara aukalega með hverju liði, sem er allt of mikið. Það er líka tilgreindur kostnaður við að Blikar hafi farið í Evrópukeppni. Það er samt aukalega, fyrir utan hallann,“ sagði Valtýr í þætti sínum á dögunum.
Kvaðst hann svo hafa heimildir fyrir því hversu mikið tapið er.
„Samkvæmt mínum upplýsingum er hallinn tæpar 300 milljónir. Þessi kostnaður við hitapulsuna á Laugardalsvellinum er í kringum 50-60 milljónir.
Tekjur karlalandsliðsins hafa minnkað svo mikið og það verður bara að segjast eins og er að tekjurnar á kvennalandsliði eru miklu, miklu minni. Það er selt ódýrara á kvennaleikina, það eru færri áhorfendur. Það er mun dýrara á karlaleikina og fleiri áhorfendur. Það er spurning hvað KSÍ ætlar að gera, hvort þeir ætli að jafna út þetta verð og fá fleiri á völlinn báðum megin.“