Besta deild karla fer af stað þann 10. apríl en þetta er í annað sinn sem deildin er með þessu fyrirkomulagi. Spilaðir verða 22 leikir og að þeim umferðum loknum er deildinni skipt upp í tvo hluta, eru þá spilaðir fimm leikir. 433.is mun á næstu dögum spá í spilin.
10.sæti – HK
HK er komið aftur upp í deild þeirra bestu og mun mikið mæða á hinum unga þjálfara, Ómari Inga Guðmundssyni. Þessi spennandi þjálfari tók við þjálfun HK í upphafi síðasta tímabils þegar Brynjar Björn Gunnarsson sagði starfi sínu lausu.
Ómar stýrði HK upp í Bestu deildina og lét liðið spila skemmtilegan fótbolta. HK er með sterkan kjarna sem hefur verið styrktur lítillega í vetur, liðið sárvantar framherja sem tryggir 10–15 mörk og möguleiki er á að HK sæki slíkan mann áður en tímabilið byrjar.
HK hefur sótt tvo spennandi erlenda leikmenn en miðjumaðurinn Marciano Aziz raðaði inn mörkum fyrir Aftureldingu í Lengjudeildinni í fyrra og varnarmaðurinn Ahmad Faqa kom á láni frá AIK í Svíþjóð og er ætlað að binda varnarleikinn saman.
Harðir HK-ingar hafa áhyggjur af markvarðarstöðunni en Arnar Freyr Ólafsson hefur varið mark liðsins undanfarin ár.
Spáin:
11 sæti – Fram
12 sæti – Fylkir
Lykilmaður: Leifur Andri Leifsson
Þjálfari: Ómar Ingi Guðmundsson
Heimavöllur: Kórinn
Íslandsmeistarar: Aldrei
Komnir
Marciano Aziz
Ahmad Faqa (á láni)
Atli Hrafn Andrason
Atli Þór Jónasson
Brynjar Snær Pálsson
Farnir
Stefán Ingi Sigurðarson
Ásgeir Marteinsson
Bjarni Gunnarsson
Bjarni Páll Linnet Runólfsson
Bruno Soares