„Þjálfararáðning Ráðning KR,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson þegar hann sagði frá því hver væri farsi ársins í íþróttaheiminum.
Áramótaþáttur Íþróttavikunnar var af dýrari gerðinni þetta árið, Kristján Óli Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson mættu sem gestir í þáttinn sem Helgi Fannar og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa stýrt í vetur.
Í þættinum voru veitt hin ýmsu verðlaun og þá var farið yfir allt það helsta úr íþróttalífinu hér á landi sem og erlendis.
„Þetta er farsi frá upphafi til enda, Páll formaður hefur reynt að verja þetta og teikna upp fallega mynd. Þetta var lélegt hvernig að þessu var staðið, þeir fóru út í ánna með markmið sem þeir voru aldrei að fara að ná. Það var Óskar Hrafn, svo kom bara nei eftir nei eftir nei. Þeir enda með Gregg Ryder, það má vel vera að hann geri vel en það var ekki planið og kveikir ekki neina neista í Vesturbænum. Þrátt fyrir að hann hafi boðið þeim ölkrús,“ sagði Hörður Snævar.
Kristján segir að Páll hafi ekki sagt allan sannleikann en segir aðstöðuna sem KR fær ekki góða.
„Hann laug því upp í opið geðið á KR-ingum, Páll er formaður KR og búinn að vera það núna. Hann tók við að Kidda Kjærnested og það hefur verið sorgarsaga. Miðað við leikmannahópinn í dag er það kraftaverk ef þeir ná í sjötta sæitð. KR er með verstu aðstöðuna á höfuðborgarsvæðinu, það spilar líka inn í.“
Hrafnkell Freyr segir Reykjavíkurborg gera lítið úr KR með þá aðstöðu sem félagið hefur í dag. „Þetta er óvirðing gagnvart KR,“ sagði virtasti málari landsins.
Umræðan um þetta í spilaranum að ofan.