Það er ekki venjan að Graeme Souness, fyrrum leikmaður Liverpool, sýni þjálfurum eða leikmönnum mikinn skilning sem sparkspekingur.
Souness hefur lengi starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi og hefur verið duglegur að gagnrýna fjölmarga þjálfara og leikmenn á sínum ferli í því starfi.
Souness skilur hins vegar Spánverjann Mikel Arteta, stjóra Arsenal, sem var hundfúll eftir leik sinna manna við Newcastle um síðustu helgi.
Newcastle vann þann leik 1-0 með mjög umdeildu marki sem Anthony Gordon skoraði. VAR skoðaði þrjá mismunandi hluti áður en markið var dæmt gott og gilt en margir vilja meina að það hafi verið kolröng ákvörðun að leyfa markinu að standa.
,,Ég verð að viðurkenna það að ég vorkenni Mikel Arteta og skil hans viðbrögð eftir dómgæslu síðustu helgar,“ sagði Souness en Arteta var hundfúll eftir viðureignina.
,,Það að leyfa marki Anthony Gordon að standa var einfaldlega rangt og það var augljóst fyrir alla þá sem vita eitthvað um fótbolta.“