Farþegum flugfélagsins Iberia var brugðið á sunnudaginn var þegar flugi þeirra var aflýst og leikmenn spænska knattspyrnuliðsins Sevilla stigu um borð í þeirra stað.
Sevilla hafði fyrr um daginn gert 1-1 jafntefli við Celta Vigo á útivelli og var að fara að fljúga aftur til suðurhluta Spánar.
Farþegarnir áttu að fljúga til Madrídar en þess í stað var fluginu aflýst, leikmönnum Sevilla hleypt inn í vélina og henni flogið til Sevilla í stað Madrídar.
Ástæðan fyrir þessu er að einkavél Sevilla var biluð og því var gripið til þessa umdeilda ráðs. 80 farþegar Iberia biðu í óvissu á meðan þar til tilkynnt var um að flugi þeirra hefði verið aflýst.
Farþegar voru skiljanlega ósáttir og lýstu yfir ósætti sínu á samfélagsmiðlum.
Flugfélagið gaf út yfirlýsingu þar sem kom fram að það myndi bæta farþegunum þetta upp.