Vanda Sigurgeirsdóttir ætlar að hætta sem formaður KSÍ í febrúar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar nú í kvöld.
Vanda segist hafa íhugað málið um nokkurt skeið en hún fari nú aftur til fyrri starfa, ársþing KSÍ fer fram í febrúar og þá verður kjörinn nýr formaður.
Vanda tók við starfinu undir lok árs árið 2021 þegar sambandið logaði stafnanna á milli. Stjórnin hafði þá sagt af sér og Guðni Bergsson sem formaður eftir mjög erfið mál.
Vanda var svo kjörinn til tveggja ára í ársbyrjun árið 2022 og hefur síðan þá gengt embætti en ákveður nú að hætta.
Nokkrir hafa verið nefndir sem arftakar Vöndu en þar á meðal er Guðni Bergsson, Þorvaldur Örlygsson, Björn Einarsson, Ásthildur Helgadóttir og Bjarni Guðjónsson.
Yfirlýsing Vöndu:
Kæru vinir og félagar.
Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ á næsta þingi, sem haldið verður í febrúar næstkomandi.
Það hefur verið mér mikill heiður að gegna stöðu formanns KSÍ. Á þessum tíma hef ég hitt og unnið með yndislegu fólki sem brennur fyrir framgangi fótboltans á öllum sviðum, bæði afreks- og grasrótarfótbolta, sem og þeirri samfélagslegu ábyrgð sem við svo sannarlega berum.
Með því að kjósa mig sem formann braut knattspyrnuhreyfingin á Íslandi blað í sögunni. Ég er ákaflega stolt af því að vera fyrsta konan sem gegnir formennsku í knattspyrnusambandi í Evrópu allri. Jákvæð áhrif af fjölgun kvenna eru þegar komin í ljós og við getum stolt sagt að framtíðin sé björt.
Fram að ársþingi mun stjórn KSÍ og ég sem formaður vinna áfram af krafti að hagsmunum knattspyrnunnar og ég mun verða nýjum formanni til halds og trausts eins og þörf krefur við vistaskiptin.
Þessi ákvörðun er tekin eftir mikla umhugsun en ég hef ákveðið að hverfa til fyrri verkefna hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og KVAN. Þar mun ég halda áfram lífsstarfi mínu, sem snýr að menntun og þjálfun fagfólks, fræðslu fyrir foreldra og börn, með áherslu á eineltisforvarnir, jákvæð samskipti og velferð.
Ég geng stolt frá borði og hlakka til að fylgjast með hreyfingunni vaxa og dafna og vera áfram hreyfiafl til góðs. Áfram Ísland.
Kveðja, Vanda Sigurgeirsdóttir