Kristinn Jónsson hefur tilkynnt að hann sé að yfirgefa KR. Hann birtir færslu á Instagram þar sem hann staðfestir þetta.
„Eftir 6 frábær ár í KR hef ég tekið þá ákvörðun að breyta til,“ skrifar Kristinn sem var að verða samningslaus.
Bakvörðurinn hefur verið lykilmaður hjá KR undanfarin ár en nú er ljóst að annað lið fær að njóta krafta hans.
„Ég hef gefið allt í verkefnið og er gífurlega stoltur af þessum tíma í KR-treyjunni. Margt stendur upp úr, Íslandmeistara titillinn 2019, fólkið sem ég hef kynnst í kringum klúbbinn, stuðningmenn og liðsfélagarnir í gegnum árin. Innilegar þakkir fyrir mig,“ skrifar kappinn.
Hinn 33 ára gamli Kristinn hefur til að mynda verið orðaður við Breiðablik.