Rúnar Kristinsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Fram. Tíðindin hafa legið í loftinu en hafa nú verið staðfest.
Rúnar lét fyrr í haust af störfum sem þjálfari KR en Vesturbæjarliðið var ekki til í að framlengja samning hans. Rúnar hafði stýrt KR frá því 2017 en þar áður var hann með liðið frá 2010-2014. Einnig hefur hann þjálfað Lokeren í Belgíu og Lilleström í Noregi.
Jón Sveinsson var látinn fara frá Fram á miðju síðasta tímabili og tók Ragnar Sigurðsson við út leiktíðina. Tókst honum að halda liðinu uppi en nú er ljóst að hann verður ekki áfram aðalþjálfari liðsins.
Rúnar skrifar undir þriggja ára samning við Fram sem hafnaði í tíunda sæti Bestu deildar karla á síðustu leiktíð.