Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, viðurkennir að hann hafi áhyggjur af sæti sínu í enska landsliðinu á meðan hann er ekki að spila með Arsenal.
Englendingurinn missti sæti sitt til David Raya sem kom til Arsenal síðla sumars.
„Auðvitað hef ég áhyggjur af því,“ svaraði Ramsdale, spurður út í hvort hann hefði áhyggjur af sæti sínu í enska landsliðinu.
„Ég hef aldrei verið í þessari stöðu áður. Mig langar að verða markmaður númer eitt hjá Arsenal að nýju.“
Ramsdale hefur verið einn af þremur markvörðum Englands undanfarið en ekki tekist að skáka Jordan Pickford um stöðu aðalmarkvarðar hjá landsliðinu.
„Mig langar að gefa þjálfaranum hausverk þegar kemur að því að velja aðalmarkvörð.“