Newcastle hefur gefið út yfirlýsingu vegna máls Sandro Tonali, leikmanns félagsins, sem er líklega á leið í langt bann fyrir brot á veðmálareglum.
Er þetta hluti af stóru máli á Ítalíu þar sem nokkrar stjörnur fara líklega í langt bann.
Tonali gekk í raðir Newcastle í sumar frá AC Milan en brotin áttu sér stað þegar hann var hjá síðarnefnda liðinu. Hefur hann viðurkennt að hafa veðjað á leiki liðsins en ekki þá sem hann spilaði og þá veðjaði hann alltaf á sigur Milan.
„Newcastle United getur staðfest að Sandro Tonali er hluti af rannsókn ítalskra yfirvalda og knattspyrnusambandsins þar í landi í tengslum við ólögleg veðmál,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Newcastle.
„Sandro sýnir fullan samstarfsvilja í rannsókninni og mun halda því áfram. Hann og hans fjölskylda fær allan stuðning félagsins. Vegna rannsóknarinnar munum við eða Sandro ekki tjá okkur frekar um málið að svo stöddu.“